Anders Tegnell, sóttvarnalæknir Svíþjóðar, segir að stefna ríkisins í baráttunni við kórónuveiruna geri það betur í stakk búið en ella til að takast á við aðra bylgju faraldursins, komi til hennar síðar á árinu. Ónæmi fyrir veirunni sé nú metið um 15 til 20 prósent og það muni hægja talsvert á útbreiðslu. Þetta kom fram í máli Tegnells í morgunþætti í breska ríkisútvarpinu í morgun.
Viðbrögð Svíþjóðar við faraldrinum hafa verið nokkuð frábrugðin þeim sem gripið hefur verið til í nágrannalöndunum. Dauðsföll af völdum veirunnar eru hlutfallslega talsvert fleiri í Svíþjóð en á hinum Norðurlöndunum og staðfest smit sömuleiðis fleiri. Þá hafa aldraðir farið einna verst út úr faraldrinum í Svíþjóð.
16.755 smit hafa greinst í Svíþjóð samkvæmt tölum frá Johns Hopkins háskólanum í Baltimore. Þá hafa 2.021 látist vegna veirunnar í landinu. 172 hafa látist í Finnlandi, 194 í Noregi, 394 í Danmörku og tíu hér á Íslandi.
Tegnell lagði í morgun áherslu á téð ónæmi. Þá hefði heilbrigðiskerfið haft tök á faraldrinum, þótt álagið hafi verið mikið, og benti jafnframt á að um helmingur dauðsfalla hefði verið inni á hjúkrunarheimilum. Ekki fengist séð að harðari aðgerðir hefðu gert nokkuð til, þar sem heimsóknarbann hefði þegar verið í gildi.