Fótbolti

Hreinlæti og svefnvenjur kom í veg fyrir að Neville og Beckham yrðu góðir herbergisfélagar

Anton Ingi Leifsson skrifar
Það gekk ekki vel hjá Neville og Beckham að vera herbergisfélagar.
Það gekk ekki vel hjá Neville og Beckham að vera herbergisfélagar.

Gary Neville og David Beckham deildu herbergi í útileikjum Manchester United fyrstu sex mánuðina er þeir voru að brjótast inn í aðallið United en herbergislífið gekk ekki of vel.

Neville var í viðtali við Sky Sports þar sem hann starfar sem spekingur um leið þeirra beggja inn í aðalliðið og hann segir skemmtilega sögu úr samvist þeirra.

„Ég var í herbergi með Beckham og svo hætti það því allir leikmennirnir fóru í einstaklingsherbergi,“ sagði Neville. „Ég held að þeir hafi fundið það út að leikmennirnir höfðu mismunandi þarfir og fóru til dæmis að sofa á mismunandi tímum.“

„Það voru tvö vandamál hjá okkur Becks! Ég var vanur að fara sofa klukkan níu á kvöldin og vakna fimm um nóttina en hann vildi vaka til ellefu og vakna klukkan átta, svo hann hélt mér vakandi til ellefu og ég vakti hann fimm um morguninn. Svo þetta var ekki að virka.“

Það voru ekki bara svefnvenjur sem kom í veg fyrir að þeir félagar náðu vel saman. Þeir léku í ellefu ár saman hjá Manchester United eftir að hafa komið upp í gegnum akademíu félagsins.

„Hann er snyrtilegasta manneskja sem ég veit um. Hann fer inn í herbergi, kveikir á kertum, setur upp myndir og allt er fullkomið. Þetta hefur verið eins síðan hann var átján. Ég hendi öllu bara út um allt svo þetta var ekki að virka,“ sagði Neville.

„Ég var alltaf talandi og alltaf að rífast. Hann var algjör andstæða. Hann vildi bara hlusta á tónlist og vildi frið. Hann vildi bara hanga.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×