Miklar vendingar hafa verið í rekstri Icelandair frá því kórónuveirufaraldurinn hófst. Félagið sagði upp ríflega tvöþúsund manns eftir að stjórnvöld gáfu út að ríkið ábyrgist þriggja mánaða uppsagnafrest hjá starfsfólki fyrirtækja þar sem hefur orðið 75% tekjusamdráttur eða meira.
Í gær tilkynntu stjórnvöld að þau myndu mögulega styðja félagið með láni eða ábyrgðum takist að afla nýs hlutfjár.
Í morgun barst svo tilkynning um að stjórnendum félagsins væri heimilt að safna þrjátíu milljörðum í nýtt hlutafé. Hluthafafundur fer fram á 22. maí.
Bogi Bils Bogason forstjóri er bjartsýnn á framhaldið.
„Ég er mjög bjartsýnn á það því viðskiptalíkan okkar félags hefur margsannað sig. Það hefur skilað góðri afkomu til margra ára og það kom inní ástandið með góða eiginfjárstöðu og lausafjárstöðu. En auðvitað er þetta krefjandi verkefni í allri þessari óvissu,“ segir Bogi.
Íslandsbanki, Landsbanki og Kviku banki aðstoða félagið við hlutafjárútboðið. Það er margt sem þarf að skýrast áður en hluthafafundur fer fram en fjárfestar vilja vita hvernig fer með samninga vegna Max- flugvélanna sem voru kyrrsettar, með kostnað og þar á meðal launakostnað og aðrar áætlanir félagsins í tekjum og kostnaði. Bogi segir að félagið standi ágætlega að vígi varðandi samninga við Boeing.
„Það eru ennþá tafir á afhendingu flugvélanna sem gerir samningsstöðu okkar betri ef það verður niðurstaða okkar að taka ekki við vélunum,“ segir Bogi.
Telur virði félagsins mun meira en endurspeglast í genginu
Gengi hlutabréfa í Icelandair hafa hríðfallið síðustu mánuði í Kauphöllinni. Bogi segir þetta sömu þróun og annars staðar. Virði félagsins sé meira.
„Ég er sannfærður um að virði félagsins eu til lengri tíma er mun hærra en kemur fram á markaði í dag en þessi skammtímaáhrif eru gríðarleg. Þetta hefur verið skilgreint sem kerfislega mikilvægt fyrirtæki og í raun það mikilvægasta á landinu. Það er því mikilvægt að það standi sterkt þegar óvissunni lýkur og sé í lykilstöðu að reisa hér aftur við öflugt efnahagslíf,“ segir hann.
Bogi segist ekki geta tjáð sig um hvað ríkið þurfi að koma með mikið fjármagn en samgönguráðherra sagði í Kastljósi í gær að það væri umtalsvert meira en fimm til tíu milljarða.
„Við erum að vinna á ákveðnum áætlunum hjá okkur og fjárhæðin þar er ekki alveg komin í ljós. Við vinnum náið með yfirvöldum í þessu máli,“ segir hann.
Hlutafjárútboð um miðjan júní
Bogi býst við að hlutafjárútboð verði nokkrum vikum eftir hluthafafund.
„Það er stefnt að því að klára hlutafjárútboð um miðjan júní,“ segir hann.