Þungu fargi er létt af Berglindi Björgu Þorvaldsdóttur sem losnar úr ákveðinni prísund á Ítalíu á morgun þegar hún fær að fara út að skokka. Hún heldur heim til Íslands á næstu dögum.
Berglind hefur verið í útgöngubanni líkt og aðrir íbúar Ítalíu síðustu tvo mánuði vegna kórónuveirufaraldursins. Hún var að láni frá Breiðablik hjá AC Milan og hafði staðið sig afar vel fyrir ítalska stórveldið þegar faraldurinn setti allt úr skorðum í landinu. Á morgun mega Ítalir aftur fara út og hreyfa sig haldi þeir fjarlægð frá öðrum, og liðsæfingar gætu hafist 18. maí. Berglind heldur hins vegar heimleiðis á næstu dögum og verður með Breiðabliki þegar Íslandsmótið hefst snemma í næsta mánuði, ef að líkum lætur.
„Mér er gríðarlega létt. Að geta loksins farið út að labba og hlaupa er svo góð tilfinning. Einu skiptin sem maður mátti fara út var til að labba í búðina og ég var byrjuð að labba lengri vegalengdir í búðina til að fá meiri hreyfingu,“ sagði Berglind við Vísi.
„Síðustu vikur hafa verið mjög erfiðar. Þessi óvissa var að fara með mann á tímabili og núna í fyrsta skipti á þessum níu vikum hefur maður eitthvað til þess að hlakka til,“ sagði Berglind.
Eftir 9 vikur inni, þá má á morgun fara út að labba/hlaupa. Ég er svo spennt því fyrir að ég held ég muni ekkert sofa í nótt
— Berglind Thorvaldsd (@berglindbjorg10) May 3, 2020
Berglind varð markadrottning Pepsi Max-deildarinnar á síðustu leiktíð þegar Breiðablik varð í 2. sæti þrátt fyrir að tapa ekki leik á tímabilinu. Eftir heimkomu þarf hún að fara í tveggja vikna sóttkví en svo getur hún mætt á æfingar hjá Blikakonum sem þá verða ef til vill farnar að geta æft saman án takmarkana. Til stendur að Íslandsmótið hefjist snemma í júní.
„Ég mun nýta þennan mánuð vel í að komast í gott stand fyrir mótið. Ég mun hafa allt sem ég þarf þegar ég kem heim í sóttkví. Svo verð ég tilbúin þegar ég má byrja að æfa með Breiðabliki aftur,“ sagði Berglind. Þrátt fyrir erfiða síðustu mánuði kveðst hún opin fyrir því að snúa aftur til Mílanó síðar enda hafi hún notið lífsins í borginni áður en faraldurinn skall á.