Innlent

Drepast kvalafullum dauðdaga vegna olíumengunar

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Þessa mynd af hræjunum birti Náttúrustofa Suðurlands á Facebook-síðu sinni í gær.
Þessa mynd af hræjunum birti Náttúrustofa Suðurlands á Facebook-síðu sinni í gær. Náttúrustofa Suðurlands

Starfsfólk Náttúrustofu Suðurlands fór í Stafnes á norðvestanverðri Heimaey í gær þar sem ábendingar höfðu borist um að þar væru mörg fuglshræ.

Á nesinu fundust 27 hræ, flest af æðarfuglum að því er segir í færslu á Facebook-síðu Náttúrustofunnar, en einnig af langvíu og álku að því er fram kemur á forsíðu Morgunblaðsins í dag.

Af þeim 27 fuglum sem fundust dauðir voru 14 fuglar olíubornir, líklega af svartolíu, en svartolíublautir fuglar hafa fundist á fleiri stöðum á strönd Heimaeyjar og einnig við suðurströndina.

Erpur Snær Hansen, forstöðumaður Náttúrustofu Suðurlands, segir í samtali við Morgunblaðið að sýni úr olíunni veðri send til Noregs til efnagreiningar.

Sýni úr fugli sem var blautur vegna olíu og fannst í Reynisfjöru var greint og reyndist það svartolía líkt og seld er hér. Að sögn Erps notar enginn slíka olíu í dag nema farmskip.

Ein tilgátan er sú að svartolían kunni að koma úr sokknu skipsflaki austan við Vestmannaeyjar og berist með straumnum vestur með landinu. Fuglarnir sem hafa mengast af olíunni halda sig mest við ströndina, líkt og raunin er með æðarfuglinn..

„Þessi meng­un virðist vera viðvar­andi og ekki stoppa. Fugl­arn­ir virðast lenda í svartol­í­unni úti á rúm­sjó. Þeir kom­ast gegn­blaut­ir af olíu í land, reyna að þrífa sig með því að éta af sér ol­í­una. Svo drep­ast þeir kvala­full­um dauðdaga,“ segir Erpur í samtali við Morgunblaðið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×