Fótbolti

Liðsfélagi Alfons keyptur til Englands eftir frábært tímabil

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Í leik gegn AC Milan.
Í leik gegn AC Milan. vísir/Getty

Frábær árangur norska meistaraliðsins Bodo/Glimt hefur ekki farið fram hjá knattspyrnufélögum í stærri deildum Evrópu.

Í gær gekk enska B-deildarliðið frá samningum við danska kantmanninn Philip Zinckernagel sem var í lykilhlutverki í sóknarleik Bodo/Glimt á nýafstaðinni leiktíð og var valinn besti leikmaður deildarinnar.

Hinn 26 ára gamli Zinckernagel skoraði nítján mörk auk þess að leggja upp önnur átján í þeim 28 leikjum sem hann spilaði en landi hans í sóknarlínu Bodo/Glimt, Kasper Junker, var markahæstur í deildinni með 27 mörk.

Zinckernagel gerir fimm og hálfs árs samning við Watford sem féll úr ensku úrvalsdeildinni á síðustu leiktíð en hann mun klæðast treyju númer sjö hjá enska liðinu.

Áður en Bodo/Glimt hafði tryggt sér norska meistaratitilinn seldi félagið sóknarsinnaða miðjumanninn Jens Petter Hauge til ítalska stórliðsins AC Milan.

Íslenski hægri bakvörðurinn Alfons Sampsted er á mála hjá Bodo/Glimt og var fastamaður í meistaraliðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×