Heimamenn komust yfir strax á þrettándu mínútu þegar Aaron Connolly skoraði eftir góðan undirbúning Leandro Trossard. Gestirnir voru fljótir að svara því Romain Saiss skallaði knöttinn í netið eftir nítján mínútna leik.
Á 34.mínútu varð Dan Burn fyrir því óláni að setja boltann í eigið net eftir að boltinn skaust til hans eftir skot Pedro Neto. Á síðustu mínútu fyrri hálfleiks fengu Úlfarnir svo vítaspyrnu sem Ruben Neves skoraði úr og sá til þess að Úlfarnir fóru með tveggja marka forystu í leikhléið.
Heimamenn mættu tvíefldir til leiks í síðari hálfleik og minnkuðu muninn strax á 46.mínútu með marki úr vítaspyrnu. Neal Maupay sá um það.
Á 70.mínútu jafnaði Lewis Dunk svo metin fyrir heimamenn en fleiri urðu mörkin ekki. Lokatölur 3-3.