Viðbragðsaðilar hafa það sem af er degi þurft að koma 1500 manns til aðstoðar sem hafa setið fastir í bílum sínum. Snjórinn í Madríd gerði skíðafólki kleift að draga fram skíðin og skíða um borgina.
Karlmaður og kona drukknuðu eftir að á flæddi yfir bakka sína nærri Malaga á suður Spáni. Heimilislaus maður varð úti í nótt í Calatayudborg.
Fernando Grande-Marlaska, innanríkisráðherra Spánar, hvatti fólk til þess að halda sig heima.
„Nú ríður yfir okkur versti stormur síðustu hálfa öldina,“ sagði hann í dag.
Meira en 650 vegir hafa verið lokaðir vegna snjókomunnar og fjöldi fólks þurfti að sofa í bílum sínum í nótt eftir að það festist á vegum.
Skólar eru lokaður þar til á miðvikudag vegna veðursins og Barajas flugvöllur í Madríd hefur verið lokaður frá því í gær og verður lokaður út daginn í dag. Meira en fimmtíu flugum sem fljúga áttu til Madríd, Malaga, Tenerife og Ceuta var aflýst vegna veðursins.
Veðurstofa Spánar greindi frá því í dag að svona mikill snjór hafi ekki fallið í Madríd frá árinu 1971.