Eitthvað hefur borið á áhyggjum um aðgengi Íslendinga að bóluefni en þrátt fyrir að íslensk stjórnvöld hafi tryggt sér skammta frá þremur mismunandi framleiðendum hefur ríkt óvissa um afhendingartíma bóluefnanna.
Bergström, sem starfar sem eins konar umboðsmaður Íslands, Svíþjóðar og Noregs gagnvart bóluefnasamstarfi ESB, sagði í kvöldfréttum RÚV að tæplega 1,2 milljónir skammta hafi nú verið eyrnamerktir Íslandi.
Greint frá því í gær að Ísland eigi von á tvöfalt stærri skammt af bóluefni Pfizer og BioNTech en gert var ráð fyrir í kjölfar viðbótarsamnings ESB við framleiðendurna. Áætlað er að fjórðungur þessara skammta eigi eftir að skila sér fyrir sumarið. Þar að auki er bóluefni Moderna komið með markaðsleyfi hér á landi og von er á um þúsund skömmtum af því í næstu viku.
Framleiðslugeta eigi eftir að margfaldast
Bergström segir að útlit sé fyrir að hlutirnir muni gerast hratt í vor.
„Það eru vonandi að koma fimm bóluefni, núna í vor, það þýðir að um mitt sumar verður bólusetningu lokið á Íslandi, í Svíþjóð, Noregi og öllum Evrópusambandsríkjunum,“ sagði hann í kvöldfréttum RÚV.
Þá sagði hann að þrátt fyrir að það hafi gengið hægt að fá bóluefni til landsins fram að þessu eigi hann von á því að flæðið fari að aukast töluvert. Vísar hann þar til að mynda til þess að útlit sé fyrir að framleiðslugeta Pfizer muni tvöfaldast eða þrefaldast í mars.
Þar að auki telur hann að ESB veiti bóluefni Astra Zeneca og Oxford-háskóla markaðsleyfi í lok janúar en íslensk stjórnvöld eiga von á tæplega 70 þúsund skömmtum af því bóluefni í mars.