Kári Stefánsson forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar sagði í samtali við blaðið að Danir væru að öllum líkindum að „eyðileggja“ samningaviðræður Íslendinga við Pfizer um bóluefnisrannsókn hér á landi.
Kári lýsti því að trúnaðarbrestur fulltrúa Pfizer í Skandinavíu, konu að nafni Mette, væri rót vandans. Hún hefði verið á fundi Kára og Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis með vísindamönnum Pfizer og sagt dönskum sóttvarnayfirvöldum frá viðræðunum. Danir vildu nú vera með í samningum, sem Kári taldi ekki vænlegt.
Þórólfur segir í samtali við fréttastofu að hann viti raunar ekkert um málið og geti ekkert fullyrt um það.
„Samskiptin sem ég hef átt við alla fulltrúa Pfizer hafa verið bara fín. Þetta er eitthvað sem Kári þarf að útskýra betur, ég veit ekki alveg um hvað þetta snýst,“ segir Þórólfur.
Vísir hafði samband við Mette Skovdal, umræddan fulltrúa Pfizer, í morgun. Hún kvaðst ekki geta tjáð sig um málið og vísaði á talsmann fyrirtækisins. Vísir hefur sent Pfizer fyrirspurn vegna málsins.