Úrkoma mældist innan við einn millimetra á Seyðisfirði í nótt og hefur hækkun vatnshæðar í borholum verið óveruleg. Fjarlægðarmælingar í speglum sýna engar vísbendingar um hreyfingar í Botnahlíð. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Veðurstofunni.
Þar segir jafnframt að ekki hafi orðið vart við hreyfingar í hlíðinni síðastliðinn sólarhring og að skriðuhætta verði metin í björtu í dag. Veðurspár gera ekki ráð fyrir mikilli rigningu í dag.
Á föstudaginn ákvað lögreglustjórinn á Austurlandi í samráði við Ríkislögreglustjóra og Veðurstofu Íslands að rýma á fimmta tug húsa á Seyðisfirði vegna úrkomuspár.
Rýmingin var gerð í varúðarskyni vegna óvissu um stöðugleika hlíðanna í Botnabrún eftir skriðuföllin í desember. Ekki er vitað hvenær þeim sem gert var að yfirgefa hús sín á föstudag geta snúið aftur heim.