Eva Laufey er gestur í nýjasta þættinum af Snyrtiborðið með HI beauty og viðurkenndi þar að oftast sér hún sjálf um að farða sig fyrir sjónvarpið, en hún tekur reglulega upp matreiðsluþætti og einnig innslög fyrir Ísland í dag. Hún leggur samt mesta áherslu á hárgreiðsluna og spilar hárblásari þar lykilhlutverk alla daga.
„Það er mikið gert grín að mér af því ég elska blástur. Ég elska góðan blástur af því ég er sko níræð inn við beinið,“ segir Eva Laufey og hlær.
Öruggari með sig ef hárið er í lagi
„Svavar Örn vinur minn er búinn að vera hárgreiðslumaðurinn minn í sautján ár og hann hefur kennt mér mátt blástursins.“
Eva Laufey segir að hún blási alltaf á sér hárið eftir þvott og notar við það rúllubursta. Við sérstök tilefni setur hún svo rúllur í hárið.
„Hárið mitt skiptir mig örugglega meira máli en að vera vel förðuð. Ég eiginlega hugsa fyrst um hárið, því að ég er miklu öruggari með mig ef hárið er í lagi.“
Hún notar mikið hársprey en leggur líka áherslu á góða hitavörn.
„Að passa hárið mitt fyrir hitanum af því ég blæs það nánast á hverjum degi.“
Í þættinum talar Eva Laufey líka um leyndarmálið á bak við fyllinguna í hárinu, uppáhalds húðvörurnar, það sem er í snyrtitöskunni hennar og segir frá húðrútínunni sinni kvölds og morgna. Eva Laufey notar mikið Sensai vörur og segir frá þeim í viðtalinu, en taka skal fram að hún hefur í mörg ár verið í samstarfi með snyrtivörumerkinu.
Svo gefur Heiður góð ráð um litlu hárin sem virðast aldrei tolla föst við taglið og Ingunn fjallar um góðar leiðir til að setja á sig kinnalit. Hægt er að horfa á þáttinn í heild sinni í spilaranum hér fyrir neðan.
Heiður Ósk og Ingunn Sig eigendur Reykjavík Makeup School eru þáttastjórnendur Snyrtiborðsins með HI Beauty. Þær eru farðaðar með vörum frá YSL beauty, Urban Decay og Lancome. Hárið þeirra er stíliserað með John Frieda hárvörum. Þættirnir eru teknir upp í Reykjavík Makeup School og verða sýndir vikulega hér á Vísi.
Instagram: @the_hibeauty