Jón Atli Benediktsson rektor Háskóla Íslands segir í tilkynningu til stúdenta og starfsfólks í dag að skýrari mynd sé að komast á afleiðingar vatnstjónsins. Skrifstofu- og kennslurými á jarðhæð Háskólatorgs og Gimli verði ónothæf næstu mánuði. Þá er vonast til að komið verði á rafmagni og netsambandi í Gimli um helgina.
Bóksala stúdenta og Háma á Háskólatorgi opnuðu á ný í dag en ekki er reiknað með að hægt verði að opna Stúdentakjallarann fyrr en á þriðjudag.
Isabel Alejandra Díaz forseti Stúdentaráðs segir að það hafi verið mikið áfall að sjá hversu illa útleikið húsnæði skólans er eftir lekann.
„En maður var rosalega bjartsýnn fyrir vormisserið, að þetta væri allt að komast í eðlilegt horf eins og maður myndi orða það. Manni líður eins og það sé búið að vera mikil óvissa rosalega lengi út af samfélagsástandinu og mikill rússíbani. Við máttum ekki alveg við þessu. Þannig að þetta er mjög erfitt fyrir HÍ-hjartað,“ segir Isabel.

Björgvin Sigmar Stefánsson, verktaki sem unnið hefur að hreinsunarstarfi í dag, segir verkefnið vandasamt en telur þó að búið sé að ná ágætlega utan um það.
„Þetta lítur bara mjög vel út núna á öðrum degi. Þá myndi ég segja að við hefðum náð mjög góðum árangri í því að kortleggja rakann,“
Nú sé mikilvægast að þurrka veggi svo ekki þurfi að rífa þá niður. Af því myndi hljótast mikið rask.
En þið hafið séð það svartara en hér?
„Jú, jú, við höfum alveg séð það svartara og erum alltaf mjög upplitsdjarfir í þessum verkefnum.“