Jen Psaki, fjölmiðlafulltrúi Biden, sagði að forsetinn hefði hringt í Pútín til að ræða framlengingu á sáttmála ríkjanna um fækkun kjarnorkuvopna, sem að óbreyttu rennur út 5. febrúar næstkomandi.
Þá ræddu forsetarnir aðgerðir Rússa gagnvart Úkraínu, afskipti þeirra af nýafstöðnum forsetakosningum og meðferð Rússa á stjórnarandstæðingnum Alexei Navalny og öðrum friðsælum mótmælendum.
Psaki sagði Biden einnig hafa rætt við Pútín um fregnir þess efnis að Rússar hefðu lagt fé til höfuðs bandarískum hermönnum í Afganistan.
Í yfirlýsingu frá Kreml sagði hins vegar aðeins að leiðtogarnir hefðu rætt málefni líðandi stundar, svo sem samstarf í baráttunni gegn kórónuveirunni, viðskipti og efnahagsmál.
Þá hefðu þeir rætt ákvörðun Donald Trump um að draga Bandaríkin úr svokölluðu Open Skies samkomulagi og framtíð kjarnorkuvopnasamkomulagsins við Íran.