Þetta kemur fram í nýrri skýrslu HMS um stöðu og þróun húsnæðismála sem kynnt var á árlegu húsnæðisþingi HMS og félagsmálaráðuneytisins. Í skýrslunni kemur fram að þörf sé fyrir að meðaltali 1.900 nýjar íbúðir á hverju ári fram til ársins 2040.
„Helsta ástæðan fyrir aukinni þörf á næstu þremur árum er sú að fjölgun heimila er áætluð meiri en mat á fjölgun íbúða miðað við spá um íbúðafjárfestingu, ásamt því að gert er ráð fyrir að ferðamannaiðnaðurinn taki við sér og fleiri íbúðir rati aftur inn á skammtímaleigumarkaðinn. Þetta gefur til kynna að byggja þurfi meira en núverandi spár gera ráð fyrir til að sporna við aukningu á óuppfylltri íbúðaþörf á næstu árum,“ segir í tilkynningu frá HMS.
Einstaklingsheimilum muni fjölga
Stofnunin gerir ráð fyrir að íbúðaþörfin muni aukast sérstaklega mikið á árunum 2022 til 2025 og því hætt við að óuppfyllt íbúðaþörf muni aukast á því tímabili. Eftir 2030 er svo búist við því að íbúðaþörf aukist mun hægar og því mögulegt að þá muni draga verulega úr óuppfylltri íbúðaþörf. Til ársins 2040 þarf líklega um 36 þúsund íbúðir í heildina til að mæta metinni undirliggjandi íbúðaþörf landsins en það samsvarar að meðaltali um 1.900 íbúðum á ári, að sögn HMS.
Í skýrslu HMS kemur fram að greiningar á fjölgun og samsetningu heimila gefi til kynna að einstaklingsheimilum muni fjölga meira en annars konar heimilum. Gert er ráð fyrir að fjölgunin nemi um 674 heimilum á ári til ársins 2040, er fram kemur í tilkynningu.
Hlutfallsleg fjölgun heimila mun einnig vera mest á meðal einstaklingsheimila samkvæmt spánni en gert er ráð fyrir að þau verði rúmlega fjórðungi fleiri árið 2040 en þau eru nú. Alls mun um 46% af fjölgun heimila til ársins 2040 verða rakin til einstaklingsheimila. Því mun þörf fyrir minni íbúðir aukast mest. Viðhorfskannanir eru sagðar styðja við þá ályktun.
Að sögn HMS er nú þegar byrjað að byggja fleiri litlar íbúðir en áður. Frá aldamótum hafi hlutfall byggðra íbúða, minni en 70 fermetrar, verið að jafnaði um 12% af öllum íbúðum, en seinustu tvö ár farið upp í 32,5% og 28,5% á höfuðborgarsvæðinu.
Óuppfyllt íbúðaþörf minnkaði í faraldrinum
Samkvæmt greiningu lækkaði óuppfyllta íbúðaþörfin á síðasta ári um 1.700 íbúðir á milli ára og má aðallega rekja til þess að meiri fjölgun hefur orðið á húsnæði en fjölda heimila.
„Byggingarmagn ársins 2020 náði því að vinna upp talsvert af óuppfylltu íbúðaþörf ársins. Vegna COVID-19 faraldursins hefur talsvert dregið úr fólksfjölgun miðað við síðustu ár og fjöldi íbúða sem var áður alfarið í skammtímaleigu hefur bæst við framboð íbúðarhúsnæðis og lækkað þar með þörfina þó nokkuð,“ segir í tilkynningu.
Í skýrslu HMS kemur fram að óvíst sé hversu hratt markaður fyrir skammtímaleiguhúsnæði til ferðamanna muni vaxa á ný á næstu árum vegna töluverðrar óvissu í efnahagsmálum og áframhaldandi baráttu við farsóttina. Þá hafi mikið verið fjárfest í uppbyggingu hótela á síðustu árum sem muni líklega draga eitthvað úr þörf fyrir íbúðir í skammtímaleigu þegar ferðamannaiðnaðurinn tekur aftur við sér.