„Orðræðan er mjög harkaleg og oft hatursfull,“ segir forsætisráðherra. Stjórnmálamenn séu oft sakaðir um hina verstu hluti og umræðan sé ekki málefnaleg eða heilbrigð fyrir samfélagið.
„Ég held ekki að lausnin sé að stjórnmálamenn víggirði sig. Það er heilbrigðismerki á íslensku samfélagi að geta gengið um meðal fólks og átt samtal beint við fólkið í landinu. Þannig vil ég hafa það áfram. Ég held við þurfum frekar að skoða þessar orsakir,“ segir Katrín og bætir við:
„Ég held við getum öll litið í eigin barm. Að sjálfsögðu bera stjórnmálamenn ábyrgð og þeir sem taka þátt í opinberi umræðu. Ég er ekki að tala fyrir því að fólk tjái sig ekki og hér sé ekki fullt málfrelsi. En horfum til þess sem er verið að segja um fólk, það er gríðarlega hart fram gengið. Og oft ekki með málefnalegum hætti.“
Skotið var tvívegis á bíl borgarstjóra um helgina. Bæði skotin höfnuðu í einni bílhurðinni. Enginn hefur verið handtekinn vegna málsins og lögregla heldur spilunum þétt að sér og veitir litlar upplýsingar.
Skotárásin kemur í framhaldi af fregnum af skotárás á skrifstofu Samfylkingarinnar og fleiri stjórnmálaflokka og samtaka. Öll málin eru óupplýst.