Snjóflóðið féll í Avers dalnum í suðvestur Sviss, nærri ítölsku landamærunum, rétt eftir klukkan þrjú í dag. Fólkið var þar á göngu þegar flóðið féll á það.
„Hundarnir þeirra, sem grófust ekki undir í flóðinu, náðu að vekja athygli með því að gelta hátt,“ sagði svissneska þyrlubjörgunarsveitin Rega í yfirlýsingu.
„Hundarnir náðu athygli útivistarfólks sem voru nokkuð langt í burtu í dalnum og hafði ekki orðið vitni að flóðinu,“ sagði í yfirlýsingunni.
Um fimmtán til tuttugu mínútum eftir að flóðið féll kom útivistarfólkið á vettvang. Handleggir annarrar manneskjunnar sáust og höfðu ekki grafist undir í flóðinu en hin manneskjan var alveg grafin undir. Bæði slösuðust þau, en þó ekki alvarlega, og voru köld. Þau voru flutt á sjúkrahús með þyrlu.