Fótbolti

Sam­herji Hjartar sektaður: Tæp­lega fimm­tíu manna partí og lög­reglan mætti

Anton Ingi Leifsson skrifar
Anis Ben Slimane knúsar Andreas Maxsø lengst til hægri í myndinni.
Anis Ben Slimane knúsar Andreas Maxsø lengst til hægri í myndinni. Lars Ronbog/Getty

Anis Ben Slimane, miðjumaður Brøndby og samherji Hjartar Hermannssonar, hefur fengið sekt frá dönskum yfirvöldum eftir að hann var þátttakandi í partíi um helgina. Þetta staðfestir hann í samtali við Ekstra Bladet.

Á laugardaginn var Slimane í teiti í Valby, hluta af Kaupmannahöfn, er lögregla bar að garði. Hann segir hins vegar ekki hafa verið þátttakandi í teitinu - heldur hafi hann einungis verið að sækja vinkonu sína.

„Á laugardaginn fékk ég spurningu frá vinkonu minni um hvort ég gæti sótt hana því henni langaði heim og ég sagði já. Ég er svo fyrir utan húsið en næ ekki sambandi við hana svo ég fer upp í íbúðina,“ sagði Slimane við Ekstra Bladet.

„Svo fer ég inn og sé að það er mikið af fólki þarna svo ég reyni að ná í hana svo ég geti keyrt hana heim en þegar ég er á leið út úr íbúðinni þá biður lögreglan, sem er komin, mig um að vera lengur þarna.“

„Því fæ ég sekt og ég tek það á mig. Ég hefði ekki átt að fara inn í íbúðina og ég hef beðið Carsten Jensen (yfirmann knattspyrnumála), Niels Frederiksen (þjálfara) og leikmennina afsökunar,“ bætti Slimane við.

Sektin hljóðar upp á 2500 danskar krónur eða 52.705 krónur en tæplega fimmtíu manns voru í partíinu er lögreglan bar að garði.

Slimane er tvítugur. Hann braust inn í aðallið félagsins á síðustu leiktíð en er iðulega á bekknum. Hann er með samning til ársins 2024.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×