Hazard missti af æfingu Real Madrid í gær en það mun hafa verið vegna minni háttar meiðsla.
Belginn hefur verið hjá Real Madrid í eitt og hálft ár en sífellt verið að glíma við meiðsli eða reyna að komast í nógu gott form til að sýna sína bestu takta.
Hann leit út fyrir að vera aðeins of þungur þegar hann mætti til sinna fyrstu æfinga hjá Real úr sumarfríinu 2019 og síðan þá virðast stuðningsmenn Real og fleiri hafa efast um líkamlegt atgervi kappans.
Eftir að hafa verið frá keppni vegna meiðsla í desember virtist Hazard loksins vera að komast í gang en hann hefur spilað sjö leiki síðasta mánuðinn.
2x1 en Burger King. https://t.co/ac6iLKx4TZ
— Burger King España (@burgerking_es) February 2, 2021
Eftir að Hazard missti af æfingu í gær velti hinn vinsæli spænski þáttur El Chiringuito því upp á Twitter hver ástæðan gæti verið.
Burger King á Spán svaraði tístinu og skrifaði: „2 fyrir 1 á Burger King.“
Eins og fyrr segir hefur þó hamborgaratilboð ekkert að gera með fjarveru Hazards af æfingu, heldur minni háttar meiðsli. Óvíst er hvort hann mæti Huesca í spænsku 1. deildinni í fótbolta á laugardaginn.
Real Madrid tapaði 2-1 gegn Levante um helgina og er nú í 3. sæti, fyrir neðan Barcelona á markatölu og tíu stigum á eftir hinum erkifjendum sínum í Atlético Madrid.