Vonir standa til að afhending bóluefnisins geti hafist á öðrum fjórðungi þessa árs, að undangengnu mati Lyfjastofnunar Evrópu og útgáfu markaðsleyfis, af því er fram kemur í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins. Er um að ræða fimmta samninginn sem íslensk stjórnvöld gera um afhendingu bóluefnis við Covid-19 og var hann undirritaður mánudaginn 1. febrúar.
Bóluefni CureVac er nú í fasa III í prófunum. Bóluefnið er af sömu gerð og bóluefni Pfizer og Moderna, að því leyti að hluti af RNA erfðaefni veiru er notað til að vekja mótefnasvar hjá bólusettum einstaklingum. Bólusetja þarf hvern og einn tvisvar sinnum með CureVac bóluefninu með fjögurra vikna millibili til að ná fullri virkni en ólíkt efni Pfizer og Moderna þarf ekki að flytja það í miklu frosti.
Elon Musk, forstjóri Tesla, hefur gefið út að bílaframleiðandinn hyggist vinna með CureVac til að útbúa nokkurs konar örverksmiðjur. Vonast milljarðamæringurinn til þess að hægt verði að dreifa umræddum búnaði um allan heim og nýta til að framleiða milljarða skammta af bóluefninu.
Sanofi eitt eftir
Með undirrituninni hafa íslensk heilbrigðisyfirvöld samið við alla framleiðendur sem eru nú hluti af bóluefnasamstarfi Evrópusambandsins, að undanskildu Sanofi. Tafir hafa orðið á þróun bóluefnis franska lyfjafyrirtækisins eftir að það reyndist ekki veita eldra fólki nógu góða vörn og er stefnt að því að það komi á markað í lok þessa árs.
Sanofi hyggst í millitíðinni aðstoða Pfizer við framleiðslu á bóluefni þess síðarnefnda gegn Covid-19 en erfitt hefur reynst að anna eftirspurn.
Fréttin hefur verið uppfærð. Hér fyrir neðan má sjá samantekt heilbrigðisráðuneytisins um stöðu bóluefnasamninga.