Skoðun

Fórnarlömb kynbundinna ofsókna sem fá ekki vernd á Íslandi

Anna Bentína Hermansen og Steinunn Gyðu- og Guðjónsdóttir skrifa

Nýverið bárust fréttir af því að nígerísk kona sem seld var mansali frá Nígeríu til Ítalíu hafi verið neitað um alþjóðlega vernd á Íslandi og til standi að flytja hana aftur til Nígeríu. Stígamót gera alvarlegar athugasemdir við það mat stjórnvalda að Nígería teljist öruggt land fyrir mansalsfórnarlamb til að snúa til baka til.

Hér á Stígamótum höfum við hitt allmargar konur frá Nígeríu sem hafa nánast sömu sögu af mansali að segja og er mikilvægt að miðla þessum sögum og upplýsingum sem bæði Stígamót og önnur alþjóðleg samtök hafa fengið frá nígerískum konum.

Mansal er iðulega skipulögð glæpastarfsemi og svo nákvæmlega úthugsuð að það er nánast eins og ítrekað sé tekið á móti sömu konunni. Mansal er gríðarlega umfangsmikið í Nígeríu og eru sögur kvennanna af tælingu (e. grooming), ferðatilhögun (transportation) og stjórnun (controlling) allar af svipuðum toga. Skipulögð glæpastarfsemi í kringum mansal er afar umfangsmikil og er ágóði af starfseminni meiri en af flestum öðrum „viðskiptamódelum“ ef svo má að orði komast þar sem hægt er að selja sömu manneskjuna ítrekað, jafnvel í mörg ár.

Í upphafi er konan tæld með því að bjóða henni betri lífsafkomu í öðru landi (yfirleitt Ítalíu) þar sem henni er lofað góðum launum og fjölmörgum möguleikum. Þannig geti hún jafnvel séð fjölskyldu sinni farborða. Hluti af þessum samningi er að fara í gegnum svokallaða juju helgiathöfn sem er notuð til að tryggja algjöra hlýðni og undirgefni við yfirmenn viðkomandi. Juju færir þér heppni ef þú hlýðir og bölvun ef þú óhlýðnast. Þessi bölvun getur jafnvel færst yfir á fjölskyldur kvennanna, þannig að ef þær flýja aðstæður og fara heim þá er líklegt að fjölskyldan útskúfi þeim.

Hvorki konurnar né fjölskyldur þeirra hafa vitneskju um að „tækifærið“ sem þeim býðst, sé að fara í vændi. Sá sem býður þeim vinnuna, borgar flutning þeirra frá Nígeríu, sem er yfirleitt löng ferð og áhættusöm. Flestar koma þær sjóleiðina og sumar láta lífið á leiðinni. Ef þær komast til Ítalíu þá tekur „madamma“ á móti þeim, sem er yfirleitt sjálf mansalsfórnarlamb sem hefur elst og er ekki lengur „söluvæn afurð“. Að verða madamma er skárri kostur þar sem hún þarf ekki að selja líkama sinn en er skikkuð til að selja líkama annarra kvenna.

Við komuna eru þær í mikilli skuld við yfirmanninn, upphæðin veltur á tugum þúsunda evra og þær sem eru útsettar fyrir „tækifærinu“ eru bláfátækar konur. Þær eiga að borga þessa skuld með því að selja sig og ef þær gera það ekki eru þær barðar, þeim hópnauðgað og þær markvisst brotnar niður. Oft þarf það ekki til því ef þær óhlýðnast sér juju helgiathöfnin um að halda þeim í heljargreipum. En raunin er sú að oftast er „skuldin“ svo há að ógerningur er að greiða hana til baka.

Flóttamannafulltrúi Sameinuðu þjóðanna hefur bent á að konum, sem eru fórnarlömb mansals, er sérstaklega hætt við hefndaraðgerðum af hálfu þrælasalanna eftir flótta eða við endurkomu til heimalands. Jafnframt eiga þær á hættu að vera aftur seldar mansali, útskúfað af fjölskyldum sínum eða samfélagi eða verða fyrir grófri mismunun. Þær hafa því ríka ástæðu til að óttast ofsóknir. Tilteknum hópum kvenna í Nígeíu er sérstaklega hætt við að verða seldar mansali og geta þá talist falla undir skilyrði flóttamannasáttmálans um að tilheyra tilteknum félagsmálaflokki. Líta má á þessa einstaklinga sem fórnarlömb kynbundinna ofsókna. Til að tryggja að umsóknir kvenkyns fórnarlamba ofbeldis um alþjóðlega vernd fái viðhlítandi málsmeðferð ættu íslensk stjórnvöld að taka tillit til þeirra atriða og sjónarmiða sem er að finna leiðbeiningum flóttamannafulltrúa SÞ um hvernig beita megi ákvæðum Flóttamannasamnings SÞ svo hann nái til fórnarlamba mansals.

Saga þeirra nígerísku kvenna sem hafa leitað til Stígamóta og annarra sambærilegra samtaka í Evrópu er átakanleg og nánast samhljóma hjá þeim öllum. Margar þeirra hafa upplifað ítrekað ofbeldi og nauðganir. Margar lifa þessa meðferð ekki af. Sumar enda hér á Íslandi og það er óásættanlegt að íslensk stjórnvöld ákveði þá að senda þær aftur í ofbeldisaðstæður. Slíkur gjörningur lýsir skilningsleysi eða skeytingarleysi íslenskra stjórnvalda á þeim kynbyndnu ofsóknum sem þessar konur verða fyrir.

Höfundar eru starfskonur á Stígamótum




Skoðun

Sjá meira


×