Hinn magnaði Zlatan Ibrahimović skoraði tvívegis er AC Milan vann 4-0 sigur á Crotone í ítölsku úrvalsdeildinni í dag. Var Zlatan að skora sitt 500. og 501. mark á ferlinum.
Það tók heimamenn í AC Milan hálftíma að brjóta gestina á bak aftur. Þá skoraði Zlatan eftir skemmtilegan þríhyrning við Rafael Leão. Frábær afgreiðsla. Var þetta 500. mark Svíans á annars ótrúlegum ferli.
500 career club goals for Zlatan Ibrahimovi . pic.twitter.com/T8GfI9MxeI
— Squawka Football (@Squawka) February 7, 2021
Hinn 39 ára gamli Zlatan ákvað að láta ekki þar við sitja og tvöfaldaði hann forystu Milan í síðari hálfleik á 64. mínútu þegar hann fékk sendingu fyrir markið og renndi boltanum í autt markið.
Milan gerði svo út um leikinn skömmu síðar en Ante Rebić skoraði tvívegis á aðeins einni mínútu og níu sekúndum, bæði eftir sendinga frá Hakan Çalhanoğlu.
Staðan orðin 4-0 og reyndust það lokatölur dagsins. AC Milan stekkur þar með upp fyrir nágranna sína í Inter og er á toppi deildarinnar með 49 stig að loknum 21 leik. Crotone situr sem fastast á botni deildarinnar með 12 stig.