Erlent

Bólusetninga enn beðið í fátækari ríkjum

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar

Rúmlega hundrað milljónir hafa nú verið bólusettar við kórónuveirunni. Fátækari ríki heimsins hafa þó enn ekki hafið bólusetningar.

Eins og stendur hefur hvergi hærra hlutfall landsmanna fengið að minnsta kosti einn skammt af bólusetni en í Sameinuðu arabísku furstadæmunum eða um fjörutíu prósent. Ísraelar koma næst á eftir en þar teljast þó fleiri bólusettir að fullu. 

Nokkur munur er svo á þessum tveimur ríkjum og þeim sem koma á eftir. Tæp átján prósent Breta hafa fengið í það minnsta einn skammt og rúm níu prósent Bandaríkjamanna.

 Hér heima var hlutfallið 3,71 prósent í gær og á hinum Norðurlöndunum var það örlítið lægra. í Vestur-Evrópu hafa tæp þrjú prósent fengið fyrsta skammt á Spáni, í Frakklandi og Þýskalandi.

Efnameiri ríki setja nú mikla áherslu á að bólusetja forgangshópa og ganga úr skugga um að bóluefnin virki gegn nýjum afbrigðum veirunnar.

Flest þeirra ríkja þar sem bólusetningar eru ekki farnar af stað eru í hópi fátækari ríkja heimsins og það gæti enn verið nokkur bið í bólusetningar.

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hefur ítrekað varað við svokallaðri bóluefnisþjóðernishyggju. Aðalfulltrúi stofnunarinnar vegna kórónuveirufaraldursins sagði í gærkvöldi vongóður um að leiðtogar heimsins hjálpist að við að bólusetja heimsbyggðina alla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×