Um 32 þúsund manns hafa skrifað undir áskorun þess efnis að stjórnvöld endurskoði ákvörðun sína. Á skiltum sem stuðningsmenn Uhunoma báru á Arnarhóli í dag mátti lesa áletranir á borð við #BjörgumUhunoma og „Hann á heima hér.“
Uhunoma Osayomore lagði á flótta frá Nígeríu á barnsaldri og kom hingað til lands í október 2019. Hann segist þolandi mansals og kynferðisofbeldis og glími auk þess við alvarleg andleg veikindi. Hann hefur eignast fjölskyldu og góða vini á Íslandi sem bíða nú milli vonar og ótta eftir endanlegri niðurstöðu um örlög hans.

Magnús D. Norðdahl, lögmaður Uhunoma, hefur skilað inn endurupptökubeiðni í máli hans. Hann telur mat stjórnvalda þess efnis að hann sé öruggur í Nígeríu óforsvaranlegt.
„Og bara til að taka geðheilbrigðismálin, það eru þrjú hundruð geðlæknar starfandi í Nígeríu sem eru að sinna þjóð sem telur meira en tvö hundruð milljón manns. Þetta er sambærilegt við það ef við Íslendingar ættum að sammælast um það að nýta einn geðlækni, sem væri aukinheldur í hálfu starfi,“ sagði Magnús í kvöldfréttum Stöðvar 2 á föstudag.
Alsettur örum eftir barsmíðar föðurins
Saga Uhunoma er átakanleg en hann segist hafa flúið Nígeríu vegna alvarlegs ofbeldis og ofsókna af hálfu föður síns, sem sé vel tengdur inn í nígerísku lögregluna. Hann segir föður sinn jafnframt hafa ráðið móður hans bana.
„Vegna þess að ég grét sagði pabbi minn við mig að ég ætti ekki að hafa áhyggjur, hann myndi ekki lemja mig aftur. „Ekki hafa áhyggjur, ég mun gera allt betra. Ég mun ekki lemja þig aftur.“ En hann hætti aldrei. Ég er alsettur örum um allan líkamann sem hann veitti mér,“ sagði Uhunoma í kvöldfréttum Stöðvar 2 á föstudag.


