Körfubolti

Martin með tíu stig er Valencia féll úr leik í spænska konungs­bikarnum

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Martin í leik kvöldsins.
Martin í leik kvöldsins. @valenciabasket

Valencia tapaði í kvöld fyrir Real Madrid í átta liða úrslitum spænska konungsbikarsins. Martin Hermannsson skoraði tíu stig í ellefu stiga tapi Valencia, lokatölur 85-74.

Það var ljóst fyrir leik að Martin og félagar myndu eiga á brattann að sækja en Real er langbesta lið spænsku úrvalsdeildarinnar og unnið sextán af sautján leikjum sínum til þessa í deildinni. Valencia vann Real hins vegar í EuroLeague og því ekki um ómögulegt verkefni að ræða.

Real byrjaði leikinn hins vegar mun betur og skoraði 29 stig gegn aðeins 17 hjá Valencia í fyrsta leikhluta. Þó annar leikhluti hafi verið mun jafnari var munurinn kominn upp í fimmtán stig í hálfleik, 49-34.

Martin og félagar lögðu ekki árar í bát og komu sterkir inn í síðari hálfleik. Þeir unnu þriðja leikhluta með sjö stiga mun en nær komust þeir ekki og Real bætti við forystuna í síðasta leikhluta leiksins.

Fór það svo að Real vann öruggan ellefu stiga sigur, 85-74, og er þar með komi í undanúrslit bikarsins. Martin skoraði tíu stig fyrir Valencia ásamt því að taka fjögur fráköst og gefa tvær stoðsendingar. Sam Van Rossom var stigahæstur í liði gestanna með 16 stig á meðan Trey Thompkins var stigahæstur hjá Real með 23 stig.

Real Madrid mætir sigurvegaranum úr leik Lenovo Tenerife og Hereda San Pablo Burgos á laugardaginn.

Spænski konungsbikarinn er í beinni útsendingu Stöðvar 2 Sport. Á morgun verður leikur sýndur beint TD Systems Baskonia og Joventut Badalona en útsendingin á Stöð 2 Sport 2 klukkan 17.20.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×