Óttast er að með vorsókn Talibana verði stór og að ef Joe Biden, forseti Bandaríkjanna, ákveði að kalla hermenn Bandaríkjanna heim frá Afganistan, falli ríkisstjórn landsins.
Donald Trump, fyrrverandi forseti, gerði samkomulag við Talibana um að kalla hermenn heim og í staðinn áttu Talibanar að fækka árásum sínum, sem þeir hafa ekki gert. Friðarviðræður á milli Talibana og ríkisstjórnar Afganistans hafa litlum árangri skilað og samkvæmt Reuters eru leiðtogar Talibana farnir frá Doha, þar sem viðræðurnar hafa farið fram.
Talibanar hafa krafist þess að um sjö þúsund vígamönnum verði sleppt úr fangelsi og að þeir fái aðild að ríkisstjórn landsins. Ashraf Ghani, forseti, hefur neitað því, samkvæmt umfjöllun New York Times.
Útlit er að flosnað hafi upp úr viðræðunum.
Meðlimir ríkisstjórnar Bidens skoða nú áætlanir Bandaríkjanna varðandi Afganistan og það hvort standa eigi við það að flytja alla hermenn landsins frá Afganistan fyrir 1. maí, eins og samkomulag Trumps og Talibana segir til um.
Herinn hefur hins vegar óskað eftir fleiri hermönnum og fleiri loftárásum. Búist er við tilkynningu frá Hvíta húsinu á næstu vikum.

Þá segja Sameinuðu þjóðirnar að Talibanar hafi ekki slitið samskiptum sínum við al-Qaeda hryðjuverkasamtökin. Þvert á móti séu tengslin þar á milli enn náin.
Scott Miller, herforingi og yfirmaður herafla Bandaríkjanna og Atlantshafsbandalagsins í Afganistan, segir árásir Talibana í vetur hafa verið fleiri og umfangsmeiri en gengur og gerist og er óttast að vorsókn þeirra, sem vonast var til að friðarviðræðurnar myndu stöðva, verði stærri en áður.
„Ef það verður ekki dregið úr ofbeldinu, verður friðarferlið mjög, mjög erfitt,“ sagði Miller við Reuters.
Meðlimur sérsveita Talibana sagði fréttaveitunni að ef Bandaríkin hættu við að flytja hermenn sína frá landinu myndu Talbinar bregðast við með árásum sem hefðu ekki sést á undanförnum tuttugu árujm.
Ríkisstjórn Afganistans hefur skipað forsvarsmönnum öryggissveita landsins að undirbúa sig fyrir umfangsmikla og erfiða vorsókn Talibana. Þessar sveitir hafa þó átt undir högg að sækja og verið undir gífurlegu álagi.
Talibanar voru hrakktir frá völdum í innrás Bandaríkjanna árið 2001. Þá hafði ríkisstjórn Talibana stutt al-Qaeda í árásunum á Tvíburaturnanna í New York. Síðan þá hefur þeim þó vaxið ásmegin og stjórna þeir nú meira landsvæði en nokkurn tímann áður í kjölfar innrásarinnar.
Stríðið í Afganistan er það lengsta í sögu Bandaríkjanna.