Kardashian sótti um skilnað í gær en orðrómar um að hjónabandið væri komið á endastöð höfðu verið háværir um þó nokkurt skeið. Hjónin eru þó sögð ætla sér að ala upp börnin sín fjögur í sameiningu og skilja ekki í illu.
Samkvæmt heimildarmanni People er West nú að vinna úr skilnaðinum. Hann leiti til vina sinna með ýmsar vangaveltur um hvað hefði mátt fara betur undanfarin ár, en hann er sannfærður um að forsetaframboðið á síðasta ári hafi gert útslagið.
„Hann heldur að forsetaframboðið hafi verið kornið sem fyllti mælinn. Fyrir það var von, eftir það engin. Það kostaði hann hjónabandið.“
Forsetaframboðið vakti mikla athygli, þó það hafi aldrei þótt líklegt til árangurs. West tilkynnti framboðið síðasta sumar og var lengi val margt óljóst varðandi framboðið. Stofnaði hann sinn eigin flokk sem kallaðist Birthday Party, eða Afmælisflokkinn, og kynnti stefnumál á óhefðbundnum stuðningsmannafundi.
Á fundinum ræddi hann „stefnumál“ í samhengi við persónuleg fjölskyldumálefni og talaði meðal annars um þungunarrof og fæðingu dóttur sinnar North West. Sagðist hann ekki vera hlynntur þungunarrofi í dag þó hann væri þeirrar skoðunar að það ætti að vera löglegt, en þegar Kardashian átti von á North hafi hann leitt hugann að því hvort hann væri tilbúinn að eignast barn.
„Ég drap næstum dóttur mína… sama þótt eiginkona kona mín myndi skilja við mig eftir þessa ræðu, þá kom hún North í heiminn, meira segja þegar ég vildi það ekki.“