Lögmenn Trumps hafa lengi reynt að snúa við þeirri niðurstöðu en hæstiréttur hafnaði í dag kröfu fyrrverandi forsetans um að réttaráhrifum áðurnefnds úrskurðar yrði frestað. Niðurstaðan kemur eftir að hæstiréttur hafnaði þeim lagarökum í júlí að ekki ætti að láta gögnin af hendi þar sem sitjandi forseti nyti ekki einungis friðhelgi fyrir ákæru heldur einnig hvers kyns rannsókn.
Hluti af sakamálarannsókn
Óskað var eftir gögnunum í tengslum við sakamálarannsókn Cyrus Vance, umdæmissaksóknara á Manhattan, á fjármálum Trumps. Beinist rannsóknin meðal annars að peningagreiðslum sem Michael Cohen, fyrrverandi lögmaður Trumps, greiddi konum fyrir að þaga um samband sitt við kaupsýslumanninn.
Saksóknarinn kallaði upphaflega eftir því í ágúst 2019 að bókhaldsfyrirtækið Mazars USA, sem hafði lengi starfað fyrir Trump, myndi afhenda embættinu skattskýrslur þáverandi forseta fyrir árin 2011 til 2018.
Trump er eini Bandaríkjaforsetinn sem hefur neitað að birta skattskýrslur sínar opinberlega en talið er að þær geymi áður óséðar upplýsingar um auðæfi hans og starfsemi Trump Organization. Mikil leynd hefur ríkt yfir fjármálum Trumps en vísbendingar hafa komið fram um að hann hafi skotið háum fjárhæðum undan skatti í gegnum tíðina.
Fréttin hefur verið uppfærð.