Frá þessu greinir Times of Malta í dag. Hin 53 ára Galizia var myrt í sprengjuárás, en sprengja hafði verið falin í leigubíl sem hún ferðaðist í, nærri heimili sínu í Bidnija á Möltu um miðjan október 2017.
Galizia skrifaði greinar, meðal annars í Sunday Times og The Malta Independent. Hún hélt sömuleiðis úti vinsælli bloggsíðu, Running Commentary – Daphne Caruana Galizia’s Notebook, lesendur hverrar töldu fleiri en öll maltneska þjóðin. Þar beindi hún sjónum sínum að stjórnmálamönnum og háttsettum mönnum í atvinnulífinu, með það að markmiði að afhjúpa spillingu.
Muscat, sem einnig er þekkur sem il-Koħħu og var handtekinn í desember 2017, er sagður vonast til að með játningunni muni hann fá vægari dóm í málinu. Beiðni hans um náðun af hendi forseta landsins var hafnað í síðustu viku af ríkisstjórn landsins.
Hinir tveir sem ákærður eru í málinu, bræðurnir George og Alfred Degiorgio, lýsa enn yfir sakleysi í málinu.
Eftir að játningin lá fyrir hafa þrír menn verið handteknir vegna gruns um að hafa útvegað árásarmönnum sprengiefni sem notað var í árásinni á Galizia.
Reuters segir frá því að auðjöfurinn Yorgen Fenech liggi einnig undir grun um að hafa átt aðild að málinu. Hann neitar sök.