Innlent

Él og lé­legt skyggni geta gert ferða­löngum ó­leik

Vésteinn Örn Pétursson, Birgir Olgeirsson og skrifa
Lægðinni fylgja él og lélegt skyggni.
Lægðinni fylgja él og lélegt skyggni. Vísir/Vilhelm

Búist er við hvössum éljahryðjum um landið vestanvert í dag sem gætu gert ferðalöngum óleik. Veðrið verður hvað verst eftir hádegi og fram á kvöld. Veðurfræðingur segir von á hálku í vikunni.

Gular viðvaranir eru nú í gildi fyrir landið vestanvert, Vestfirði og Norðvesturland.

„Þetta eru þessir éljaklakkar sem eru að ganga hérna inn sem við erum að vara við. Það er mjög hvasst í þessum hryðjum, það náði yfir 40 metrum á sekúndu vindhviða undir Hafnarfjalli í morgun. Það þarf að hafa varann á og fylgjast með,“ segir Elín Björk Jónasdóttir, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands.

Breiðafjörður, Vestfirði, Strandir og Tröllaskagi eru undir þessari spá en veðrið gæti einni orðið leiðinlegt við Faxaflóa og á Hellisheiði.

„Það nær hámarki eftir hádegið og hryðjurnar verða öflugar eftir hádegi og fram á kvöld. Svo dregur smám saman úr í kvöld og á morgun,“ segir Elín Björk, en síðustu veðurviðvaranirnar falla úr gildi klukkan átta í kvöld.

Í vikunni er svo spáð hæglætisveðri.

„Hitinn er svolítið að hverfast um frostmark, þannig að það gæti verið hálkuástand allvíða, að það hláni á daginn og frysti aftur á nóttunni. Morgnarnir gætu orðið svolítið hálir,“ segir Elín Björk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×