Danny Murphy, sérfræðingur í Match of the day þættinum í breska ríkisútvarpinu, sér fyrir sér mikla spennu í baráttunni um farseðlana í Meistaradeildinni á næstu leiktíð.
Murphy yfir stöðuna á toppi deildarinnar eftir leiki helgarinnar þar sem Manchester City jók forystu sína þar sem bæði Manchester United, Leicster City og West Ham töpuðu öll stigum.
„Það er eins og titilbaráttan hafi klárast fyrir nokkrum vikum enda vinnur City alla leiki sína á meðan hin liðin eru að tapa stigum. City þurfti ekki einu sinni að spila vel til að vinna West Ham á laugardaginn. Nú eru þeir með tólf stiga forystu þegar bara tólf leikir eru eftir. Baráttan er því aðeins um hvaða þrjú lið fylgja City í Meistaradeildina,“ skrifaði Danny Murphy.
"It would be a brilliant achievement if they were to stay inside that top four."@alanshearer and Danny Murphy discuss Leicester's injury problems...
— Match of the Day (@BBCMOTD) February 28, 2021
Watch #MOTD2 on @BBCOne and @BBCiPlayer: https://t.co/nWwetNiMnq pic.twitter.com/sudLYF5fyD
„Endspretturinn í deildinni verður mjög áhugaverður og allt er galopið þar,“ skrifaði Murphy.
„Manchester United fékk á sig gagnrýni fyrir að sýna ekki nógu mikið hugrekki í leiknum á móti Chelsea en þökk sé stiginu á Brúnni þá er liðið hans Ole Gunnars Solskjær með sex stiga forskot á liðið í fimmta sæti. Þeir eru langlíklegastir til að taka annað sætið,“ skrifaði Murphy.
„Ég held líka að Chelsea nái einu af fjórum efstu sætunum af því að þeir hafa mikla breidd og það er mjög erfitt að vinna þá síðan að Thomas Tuchel tók við. Þeir tapa bara ekki leikjum,“ skrifaði Murphy.
„Fyrir utan þetta er erfitt að sjá fyrir sér hvernig þetta þróast. Leicester, Liverpool, West Ham og Everton telja sig öll eiga möguleika og þá eru Arsenal og Tottenham að nálgast þau eftir góð úrslit um helgina,“ skrifaði Murphy.
„Á síðasta tímabili réðst það ekki fyrr en á lokadeginum hvaða lið enduðu í þriðja og fjórða sæti þar sem Manchester United og Chelsea höfðu betur í baráttunni við Leicester. Það lítur út fyrir að þetta verði alveg eins jafnt í ár,“ skrifaði Murphy.
Það má lesa allan pistil Danny Murphy með því að smella hér.