Í uppfærslu á Facebook-síðu HS Veitna kemur fram að rafmagn sé aftur komið á í helmingi bæjarins klukkan 19:07.
Spennir í tengivirki Landsnets í Svartsengi leysti út vegna truflunar í kerfi HS Veitna í dag. Hann kom aftur inn um klukkan hálf fjögur síðdegis. Síðan þá hafa HS Veitur reynt að komast fyrir vandamálið sín megin.
Ekki hefur gengið áfallalaust að koma rafmagni aftur á. Sami spennir í Svartsengi og leysti út í dag gerði það aftur við uppbyggingu á kerfi HS Veitna skömmu fyrir klukkan 19:00 í kvöld. Spennirinn er kominn aftur í rekstur, að því er kemur fram í tilkynningu frá stjórnstöð Landsnets.