Í færslu á Facebook-síðu sinni greinir Róbert frá leyfinu. Hann tilkynnti um framboð sitt til oddvitasætis Vinstri grænna í suðurkjördæmi 7. febrúar. Forval flokksins verður haldið dagana 10. til 12. apríl. Áður hefur hann sagst ætla að láta af störfum sem upplýsingafulltrúi ríkisstjórnarinnar hljóti hann brautargengi.
Kolbeinn Óttarsson Proppé, þingmaður VG, Heiða Guðný Ásgeirsdóttir, varaþingmaður VG, og Hólmfríður Árnadóttir, skólastjóri Sandgerðisskóla, sækjast einnig eftir oddvitasætinu. Vinstri græn hafa aðeins haft einn þingmann í suðurkjördæmi. Ari Trausti Guðmundsson ákvað að gefa ekki kost á sér til áframhaldandi þingsetu.
Róbert sat á þingi fyrir Samfylkinguna frá 2009 til 2012 og utan flokka til 2013. Frá 2013 til 2016 var hann þingmaður Bjartrar framtíðar og var um skeið þingflokksformaður. Hann var ráðinn upplýsingafulltrúi ríkisstjórnarinnar í mars í fyrra.