Fótbolti

Segir Barcelona spila einum færri með Gri­ezmann á vellinum

Anton Ingi Leifsson skrifar
Griezmann stígur trylltan dans.
Griezmann stígur trylltan dans. Fermin Rodriguez/Getty

Hann er heimsmeistari, kostaði ansi margar milljónir evra og er stórstjarna í La Liga en Barcelona goðsögnin Hristo Stoichkov vill selja hann frá félaginu.

Antoine Griezmann hefur einungis skorað þrettán mörk í 39 leikjum Barcelona á leiktíðinni og Hristo Stoichkov er ekki hrifinn.

Stoichkov lék með Barcelona á árunum 1990 til 1995 en hann skorað 76 mörk í 151 leikjum fyrir félagið. Síðar var hann sóknarþjálfari hjá félaginu, á árunum 2003 til 2004.

„Þegar Griezmann er inn á vellinum þá eru Börsungar tíu. Ef þeir vilja gera eitthvað þá þurfa þeir að selja hann,“ sagði Hristo í samtali við Mundo Deportivo.

Hristo er goðsögn hjá Barcelona. Hann vann spænska meistaratitilinn fimm sinnum og þar að auki vann hann Ballon d'Or árið 1994.

„Trincao og Braithwaite ættu að vera í liðinu. Hvað er Griezmann að gera þarna?“ bætti Hristo við.

Sá franski var þó á skotskónum í síðasta leik Börsunga er hann skoraði ansi fallegt mark í 4-1 sigrinum á Huesca.

Griezmann er með samning við Barcelona til ársins 2024, líkt og Braithwaite.


Spænski boltinn, La Liga, er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. La Liga er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×