Reglugerðin tók eins og áður segir gildi á miðnætti í dag, 18. mars, og gildir til 9. apríl næstkomandi, þ.e. fram yfir páska.
Eftirfarandi breytingar taka gildi 18. mars:
Allir gestir skráðir: Á öllum viðburðum, svo sem í athöfnum trú- og lífsskoðunarfélaga, sviðlistar-, menningar og íþróttaviðburðum, ráðstefnum, fyrirlestrum og sambærilegum viðburðum, skulu gestir skráðir í númeruð sæti og teknar niður upplýsingar um nafn, kennitölu og símanúmer hvers og eins.
Engar veitingar í hléi: Óheimilt er að selja eða bjóða veitingar í hléi á viðburðum og skulu gestir beðnir um að halda kyrru fyrir í sætum sínum.
Engin blöndun milli sóttvarnahólfa: Skipuleggjendur viðburða skulu tryggja að ekki séu fleiri en 50 manns í hverju sóttvarnahólfi og að ekki verði blöndun gesta á milli hólfa.
Hlaðborð: Áfram verður heimilt að bjóða upp á hlaðborð en gestum gert skylt að sótthreinsa hendur áður en þeir sækja sér mat á hlaðborðið og einnig að því loknu, auk þess gæta að 2 metra nálægðarmörkum.
Að öðru leyti eru reglurnar óbreyttar frá því sem verið hefur. Fjöldamörk samkomubanns verður áfram fimmtíu manns, tveggja metra reglan er áfram í gildi og grímuskylda er óbreytt. Afgreiðslutími skemmti- og veitingastaða verður enn fremur sá sami og áður.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir lagði til í minnisblaði sínu til Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra að hlaðborð yrðu bönnuð. Hún fór ekki eftir þeim tillögum.