Fótbolti

Neita að hafa hótað því að fella Barcelona niður um deild

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ekki er enn vitað hvort Lionel Messi verði áfram hjá Barcelona en nýr forseti getur nú farið að einbeita sér að sannfæra hann um að vera áfram.
Ekki er enn vitað hvort Lionel Messi verði áfram hjá Barcelona en nýr forseti getur nú farið að einbeita sér að sannfæra hann um að vera áfram. AP/Joan Monfort

Spænska deildin segist ekki hafa hótað því að senda stórlið Barcelona niður um deild tækist félaginu ekki að koma fram með 125 milljóna evru tryggingu í vikunni.

Fréttir frá Spáni í vikunni voru um að La Liga hafi heimtað slíka tryggingu áður en nýr forseti tæki við.

Fjárhagsvandræði Barcelona hafa farið hátt í marga mánuði og rekstur félagsins hefur gengið illa. Kórónuveirufaraldurinn hefur haft mikil áhrif en auk þess hafa peningamálin verið í ruglinu fyrir utan það. Barcelona hefur meðal annars keypt leikmenn fyrir stórar upphæðir en þeir hafa skilað litlu fyrir liðið inn á vellinum.

Toni Freixa, sem tapaði forsetakosningunum á dögunum, sagði frá því að hann ásamt hinum tveimur frambjóðendunum, Joan Laporta og Victor Font, hafi fengið að vita það hjá starfandi forseta, Carles Tusquets, að spænska deildin myndi taka hart á því ef slík trygging kæmi ekki áður en nýr forseti væri settur í embættið. Forseti spænsku deildarinnar á þar að hafa hótað Barcelona að senda það niður um deild.

Bankatryggingin er fimmtán prósent af fjárhagsáætlun Barcelona og er sett inn sem leið til að tryggja það að félagið sé ekki rekið ábyrgðarlaust. La Liga þarf síðan að staðfesta að þessi trygging sé til staðar.

Freixa sagði frá þessu á Twitter. „Svar La Liga eða nánar til getið svar forsetans Javier Tebas, var að ef þið setjið nýjan forseta í embætti án þess að koma fram með þessa tryggingu þá mun ég senda Barcelona niður í b-deildina. Þetta sagði Carles Tusquets okkur öllum þremur forsetaframbjóðendunum,“ skrifaði Toni Freixa.

La Liga hefur nú komið fram að neitað því að að þeir Tebas og Tusquets hafi haft einhver samskipti í aðdraganda forsetakosninganna. Spænska deildin hefur líka staðfest það sem myndi gerast kæmi ekki slík trygging. Þá yrði að endurtaka forsetakosningarnar en Barcelona myndi ekki falla niður um deild.

Joan Laporta tókst að koma með þessa umræddu tryggingu á réttum tíma og hefur nú endanlega verið staðfestur sem nýr forseti Barcelona.

Fjárhagsmálin eru mikill höfuðverkur fyrir félagið en mesta pressan eins og er snýst um það hvort Joan Laporta takist að sannfæra Lionel Messi um að vera áfram þegar samningur hans rennur út í sumar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×