Liðsmenn West Ham naga sig líklega í handabökin eftir leik dagsins. Með sigri hefðu þeir farið upp að hlið Chelsea í fjórða sæti deildarinnar, en þurftu að sætta sig við jafntefli eftir að hafa komist 3-0 yfir.
Jesse Lingard, sem hefur verið sjóðandi heitur síðan hann kom til West Ham frá Manchester United, kom heimamönnum yfir á 16. mínútu.
Lingard lagði svo upp annað mark West Ham mínútu seinna, en þá var það Jarrod Bowen sem koma boltanum í netið.
Tomas Soucek kom heimamönnum í 3-0 á 32. mínútu og útlitið svart fyrir gestina.
Soucek varð svo fyrir því óláni að skora sjálfsmark sex mínútum síðar og smá von fyrir Arsenal þegar liðin gengu til búningsherbergja.
Arsenal minnkaði svo muninn niður í 3-2 með öðru sjálfsmarki leiksins, en í þetta skipti var það Craig Dawson sem setti boltann í eigið net.
Alexandre Lacazette fullkomnaði svo endurkomuna á 82. mínútu eftir undirbúning Nicolas Pepe. Niðurstaðan því 3-3 jafntefli í bráðfjörugum leik.
An exhausting encounter at London Stadium - and it ends with the points being shared!
— Arsenal (@Arsenal) March 21, 2021
3-3 (FT)#WHUARS