Valdimar Víðisson skólastjóri segir nemandann hafa verið í samneyti við nemendur í Laugarnesskóla þar sem tólf höfðu í gær greinst með breska afbrigði kórónuveirunnar. Ellefu í fyrradag og einn um síðustu helgi.
Mbl.is greindi fyrst frá. Valdimar skólastjóri segir að nemandinn hafi verið í skólanum á þriðjudaginn og svo farið í sóttkví á þriðjudagskvöld.
Lítið samneyti þeirra yngri og eldri
„Við erum að rekja ferðir hans innan skólans og samneyti við nemendur og starfsmenn. Það er alveg ljóst að það verður töluvert stór hópur sem þarf að halda áfram í sóttkví, ef ekki allir.“
Um sex hundruð krakkar nema við Öldutúnsskóla í fyrsta til tíunda bekk. Valdimar segir að yngra stigið sé ekki í annarri byggingu en samneyti við unglingastigið mjög takmarkað. Nemendur geti mæst á göngum en noti aðskilin salerni og samneyti sé lítið.
„Núna klukkan hálf ellefu er ekki talið að fyrsti til sjöundi bekkur sé útsettur fyrir smiti.“
Hann segir vinnu standa yfir innan skólans í samvinnu við smitrakningateymið.
Leiðindaafbrigðið sem það breska sé
„Þetta er rakið til samneytis nemenda við börn í Laugarnesskóla. Þetta er orðið svo skuggalegt á milli barnanna, þetta nýja leiðindaafbrigði sem breska afbrigðið er.“
Fram hefur komið að breska afbrigðið er meira smitandi og veldur frekar veikindum en þau afbrigði sem hafi verið ríkjandi undanfarið ár á Íslandi. Þá smitast börn frekar af því. Í ljósi þess var skólum utan leikskóla lokað í gær og gilda samkomutakmarkarnir einnig um börn á grunnskólaaldri.
Sex greindust innanlands með Covid-19 í gær og var einn utan sóttkvíar. Nánar hér.