Jón Þór hætti sem landsliðsþjálfari eftir uppákomu eftir leik Íslands og Ungverjalands í undankeppni EM í fyrra. Hann sagðist hafa farið yfir strikið í samtölum sínum við leikmenn liðsins.
Skagamaðurinn var gestur Hjörvars Hafliðasonar í hlaðvarpinu Dr. Football í gær þar sem hann var spurður út í brotthvarf sitt frá KSÍ.
„Það er gríðarlega margt sem ég er ekki sáttur með,“ sagði Jón Þór. Hann vildi ekki fara mikið nánar út í málið en sagði að enn væri margt ósagt í því.
„Auðvitað geri ég mikil mistök sem ég hef beðist afsökunar á. Ég týndi mér í gleðinni eftir að hafa komið liðinu á EM og fagnaði því rækilega. Ég hefði viljað að það hefði verið betur staðið að þessum starfslokum og það er margt í því sem er ennþá ósagt.“
Jón Þór segir að það hafi verið sameiginleg ákvörðun hjá sér og KSÍ að hann léti lítið fyrir sér fara eftir að fréttir af uppákomunni í Ungverjalandi bárust.
„Það var strax tekin ákvörðun að ég myndi stíga til baka og færi ekki í þennan storm eða hvað sem má kalla það sem fylgdi í kjölfarið. Ég meðvitað fór aðeins bak við tjöldin,“ sagði Jón Þór.
„Við munum taka þetta við gott tækifæri. Fyrst og fremst er ég spenntur að fylgjast með framgangi þessa liðs.“
Jón Þór tók við kvennalandsliðinu haustið 2018. Hann stýrði því í tuttugu leikjum. Tólf þeirra unnust, fjórir enduðu með jafntefli og fjórir töpuðust.