„Það er ekki mitt að taka afstöðu til þess hvort lög nái utan um þetta. Það er ábyrgð heilbrigðisráðuneytisins sem setur þessar reglugerðir og ber ábyrgð á því að allt sé innan ramma laganna,“ segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefur verið boðuð á fund velferðarnefndar vegna efasemda nokkurra þingmanna um lögmæti sóttkvíarhótelsins. Þórólfur segir það ekki nýtt af nálinni að fólk velti fyrir sér lögmæti sóttvarnaaðgerða.
„Það er náttúrlega ýmislegt af því sem hefur verið gert í þessum faraldri sem menn hafa talað um að samræmist ekki annað hvort stjórnarskrá, lögum eða öðru slíku. En auðviðtað myndi ég hafa áhyggjur af því ef niðurstaða dómstóla eða einhverra annarra ábyrgra aðila yrði sú að þetta samræmdist ekki lögum og mætti ekki gera þetta svona, þá held ég að það sé búið að kippa fótunum undan sóttvörnum að miklu leyti,“ segir Þórólfur.
Ekki einangrunarvist
Hann segir að ekki sé um einangrunarvist að ræða og verið sé að fylgja lögum um sóttkví. Hefðbundið sóttkví kveður hins vegar á um að fólk megi til dæmis fara í göngutúra og á rúntinn. Þeir sem eru á sóttkvíarhóteli mega hins vegar ekki fara út af herbergjum sínum, þurfa að hafa herbergishurðirnar lokaðar, og mega ekki fara út. Þórólfur vill ekki leggja mat á hvort þetta sé meira inngrip en gengur og gerist.
„Framkvæmdin getur verið mismunandi eftir aðstæðum. En ég bendi á að þarna greindust einstaklingar með smit sem voru í sóttkví á hótelinu. Við erum að þessu til að reyna að koma í veg fyrir að fólk sem er í sóttkví fari að smita út frá sér. Við höfum verið með útbreiðsluna hér innanlands vegna þess, bæði í þriðju bylgjunni og svo núna undanfarið, verið aðallega vegna þess að fólk sem er í sóttkví heldur ekki sóttkvína. Það umgengst aðra, hittir aðra, gerir það sem leiðbeiningar segja til um. Og á þeim grunni þá var ákveðið að fara þessa leið,“ segir Þórólfur.
Þá hefur verið kallað eftir því að aðrar reglur gildi um þá sem hér búa og starfa.
„Ég skal ekkert segja um það en ég bendi á að þau smit sem ég var að tala um áðan eru frá fólki sem eru íslenskir ríkisborgarar.“