Dagurinn byrjar hægt við gosstöðvarnar. Fáir eru á svæðinu enda nístingskuldi að sögn Gunnars Schram, yfirlögregluþjóns lögreglunnar á Suðurnesjum.
„Það er hvasst en vindur hefur gengið niður frá því í gær. Annars eru ágætar aðstæður.“
Svæðið opnaði klukkan sex í morgun og verður það opið til klukkan 18 í dag.
„Álagið er búið að vera langvarandi á björgunarsveitarmönnum og öðrum viðbragðsaðilum því verður ekki neitað og það var ákveðið fyrir páskahelgina að láta þetta mönnunarskipulag halda sér en draga svo úr mönnun eftir páska,“ sagði Gunnar.

Hann segir að umferð hafi gengið vel síðustu daga.
„Það er aðeins að mettast ásókn í þetta. Þetta er að verða jafnara og viðráðanlegra. Fólk var að koma í ansi stórum bylgjum. Fjöldi fólks kom á svipuðum tíma þannig að lítið var við ráðið. En í dag og síðustu þrjá daga hefur þetta verið jafnara,“ sagði Gunnar.
Mest er umferðin þegar líða fer á kvöldið enda margir sem vilja sjá gosið í myrkri.
„Já mér sýnist það. Fólk er að koma rétt fyrir lokun til að geta verð aðeins fram í ljósaskiptin og jafnvel fram í myrkur“