Mbl.is greindi fyrst frá málinu en Árdís segir í samtali við fréttastofu að Unnur Elva Guðmundsdóttir aðstoðarskólastjóri muni áfram sinna starfi skólastjóra, til 1. ágúst eða þar til nýr skólastjóri verður ráðinn.
Aðspurð hvort ákvörðun Leifs kæmi í kjölfar funda eða viðræðna við Hafnarfjarðarbæ sagðist Árdís ekki þekkja það og taldi best að Leifur svaraði því.
Leifur fór í ótímabundið veikindaleyfi í febrúar eftir að frá því var greint að honum hefði verið vikið frá störfum við dómgæslu í körfubolta eftir óviðeigandi skilaboðasendingar til leikmanns í kvennaflokki.
Þá sagði fræðslustjóri Hafnarfjarðarbæjar Vísi að verið væri að skoða heildarmynd málsins en bærinn hefði fengið viðbrögð frá starfsfólki og foreldrum í skólanum vegna málsins..
Rúmt ár er síðan Körfuknattleikssamband Íslands tók þá ákvörðun að Leifur myndi ekki dæma fleiri leiki á vegum sambandsins. Formaður sambandsins sagði ástæðuna vera „óeðlileg“ skilaboð sem fóru „langt yfir strikið“.
Leifur hafði dæmt leik á föstudegi í febrúar 2020 en samkvæmt heimildum fréttastofu fékk KKÍ upplýsingar um málið á sunnudegi, tveimur dögum síðar. Í framhaldinu var hann tekinn af leik sem hann átti að dæma á mánudeginum, boðaður á fund og tilkynnt að í ljósi samskipta sinna við leikmann myndi hann ekki dæma fleiri leiki á vegum sambandsins.
Ekki var þó greint frá því að honum hefði verið vikið frá dómarastörfum fyrr en ári síðar. Lítið hafði verið um keppni í íþróttinni yfir árið vegna kórónuveirufaraldursins.
Fréttin hefur verið uppfærð.