Gylfi Þór Þorsteinsson, forstöðumaður farsóttarhúsa Rauða krossins, sagði töluverða hreyfingu á gestum á Fosshóteli í Reykjavík, sem hefur verið notað sem sóttkvíarhótel síðustu daga, þar sem stór hluti þeirra sem komu fyrsta daginn sem það opnaði fái niðurstöðu úr seinni skimun í dag.

Tveir gestir greindust smitaðir af kórónuveirunni í fyrri sýnatöku. Í kvöldfréttum Stöðvar 2 sagði Gylfi Þór að einn gestur hefði farið í sýnatöku vegna einkenna og reynst smitaður. Sá hafi fengið að fara heim til sín þar sem hann gat „rúttað til“ heima hjá sér og fengið aðra heimilismenn til að fara að heiman á meðan. Hinir tveir sem greindust smitaðir á hótelinu voru fluttir í farsóttarhús.
Héraðsdómur Reykjavíkur komst að þeirri niðurstöðu að ólögmætt væri að skylda fólk til dvalar á sóttkvíarhótelinu ef það gat sýnt fram á að það hefði aðstöðu heima hjá sér til að virða sóttkví. Úrskurðurinn var kærður til Landsréttar.
Gylfi Þór sagði að gestir sem hefðu ákveðið að vera um kyrrt á hótelinu væru ánægðir með vistina. Engin vandamál hafi komið upp með þá erlendu ferðamenn sem dvelja á sóttkvíarhótelinu, að sögn Gylfa.