Súrálsflutningaskipið Taurus Confidence lagðist að bryggju á Reyðarfirði laugardaginn 20. mars en þá voru sjö af nítján manna áhöfn með einkenni Covid-19. Sýnataka leiddi í ljós að tíu voru smitaðir. Skipið kemur frá Brasilíu og flytur súrál frá Suður-Ameríku til Evrópu.
Í Facebook-færslu lögreglunnar á Austurlandi í kvöld kemur fram að sýni hafi verið tekin úr átján skipverjum sem eru um borð í skipinu í gær. Þeir sem voru smitaðir teljist nú heilir heilsu og „veirufríir“.
„Gert er ráð fyrir að sá síðasti þeirra, sá er fluttur var á Landspítala fyrir nokkru eftir að honum hafði elnað sóttin, verði útskrifaður í kvöld eða í fyrramálið. Engin smit greindust hjá þeim áhafnarmeðlimum sem ósýktir voru við komu fremur en í fyrri skimunum,“ segir í færslunni.
Til stendur að hreinsa skipið. Stefnt er því að því starfi ljúki fyrir helgi og skip og áhöfn verði þá hæf til siglingar á ný, líklega á föstudag.