Fótbolti

Byssumenn brutust inn til Smallings í nótt og ógnuðu fjölskyldu hans

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Chris Smalling hefur leikið með Roma undanfarin tvö tímabil.
Chris Smalling hefur leikið með Roma undanfarin tvö tímabil. epa/CARMELO IMBESI

Þrír menn, vopnaðir byssum, brutust inn til Chris Smalling, leikmanns Roma, í nótt. Hann var heima líkt og eiginkona hans og tveggja ára sonur þeirra.

Smalling gat ekki leikið með Roma þegar liðið mætti Ajax í seinni leiknum í átta liða úrslitum Evrópudeildarinnar í gær. Leiknum lyktaði með 1-1 jafntefli sem dugði Roma til að komast í undanúrslit Evrópudeildarinnar. Þar mætir Roma Manchester United, gamla liðinu hans Smallings.

Ítalskir fjölmiðlar greindu frá því í morgun að þrír vopnaðir menn hefðu brotist inn á heimili Smallings í miðborg Rómar, vakið hann og fengið hann til að opna peningaskáp. Innbrotsþjófarnir höfðu á brott Rolex-úr og ýmsa dýra skartgripi.

Eiginkona Smallings hringdi á lögregluna um klukkan fimm í nótt. Innbrotsþjófarnir eru enn ófundnir.

Smalling kom til Roma frá United haustið 2019. Hann kom fyrst á láni en ítalska félagið keypti hann svo í fyrra. Smalling lék með United í tæpan áratug.

Roma er í 7. sæti ítölsku úrvalsdeildarinnar. Næsti leikur liðsins er gegn Torino á sunnudaginn.


Ítalski boltinn, Serie A, er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Serie A er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×