Tillagan var samþykkt af fulltrúadeildinni með 216 atkvæðum en 208 greiddu atkvæði gegn tillögunni. Enginn þingmaður Repúblikana greiddi atkvæði með tillögunni og er því óvíst hver örlög hennar verða í öldungadeildinni, þar sem 50 þingmenn eru Demókratar og 50 Repúblikanar.
Andstöðu Repúblikana vill fréttastofa Reuters rekja til pólitískra skoðana íbúa Washington borgar en meirihluti þeirra eru Demókratar. Því er talið líklegt að verði Washington DC sitt eigið ríki muni tveir fulltrúar þess í öldungadeildinni vera demókratar sem myndi breyta stöðunni talsvert.
Demókratar hafa barist fyrir því að Washington DC, höfuðborg Bandaríkjanna, verði ríki í áratugi. Verði Washington gert að ríki er það fyrsta skiptið frá árinu 1959 sem nýju ríki er bætt við Bandaríkin, en þá gengu Alaska og Hawaii til liðs við ríkið.
Ein helstu rök Demókrata fyrir því að gera Washington DC að ríki eru þau að íbúar borgarinnar hafi engan kosningarétt í kosningum til þings Bandaríkjanna, þrátt fyrir að þeir borgi skatta, þjóni í hernum og starfi innan stjórnsýslunnar.
Lagt er til að hið nýja ríki verði nefnt Washington, Douglass Commonwealth, í höfuðið á George Washington, fyrsta forseta Bandaríkjanna, og Frederick Douglass, fyrrum þræli og baráttumanni fyrir afnámi þrælahalds.
Tillagan var fyrst tekin fyrir í fulltrúadeildinni í júní í fyrra og var þá samþykkt með 232 atkvæðum gegn 180. Öldungadeildin neitaði á þeim tíma að taka málið fyrir.
Verði Washington DC gert að ríki mun að minnsta kosti einn fulltrúi ríkisins sitja í fulltrúadeildinni. Íbúar borgarinnar eru um 700 þúsund, sem er meira en í ríkjunum Wyoming og Vermont. Fjöldi fulltrúa ríkja í deildinni ræðst af íbúafjölda en öll ríki hafa tvo fulltrúa í öldungadeildinni, óháð íbúafjölda.