Körfubolti

Kentucky-strákur sem ætlaði í nýliðaval NBA lést aðeins nítján ára

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Terrence Clarke lék eitt tímabil með Kentucky háskólanum.
Terrence Clarke lék eitt tímabil með Kentucky háskólanum. getty/Michael Hickey

Terrence Clarke, fyrrverandi leikmaður Kentucky háskólans sem ætlaði í nýliðaval NBA-deildarinnar í körfubolta, lést í bílslysi í Los Angeles í gær. Hann var nítján ára.

Clarke var einn í bílnum. Hann fór yfir á rauðu ljósi og var á miklum hraða. Clarke keyrði svo á annan bíl, ljósastaur og loks á vegg. Hann var fluttur á spítala í grenndinni þar sem hann lést.

„Ég er miður mín. Ungur maður sem við elskuðum öll er fallinn frá alltof snemma,“ sagði John Calipari, þjálfari Kentucky í yfirlýsingu.

„Terrence Clarke var yndislegur drengur sem smitaði út frá sér með persónuleika sínum, brosi og gleði. Fólk laðaðist að honum. Það er erfitt fyrir okkur að meðtaka þetta. Við erum öll í áfalli.“

Clarke lék með Kentucky í vetur. Í síðasta mánuði tilkynnti hann að hann myndi ekki snúa aftur í skólann því hann ætlaði að reyna að komast að í NBA. Clarke var nýbúinn að semja við Klutch Sports sem er með marga af þekktustu körfuboltamönnum heims á sínum snærum.

Clarke missti af stórum hluta síðasta tímabils vegna ökklameiðsla. Hann skoraði 9,6 stig að meðaltali í leik í vetur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×