Vel hefur gengið að bólusetja það sem af er degi og stutt bið í röð. Allt að 140 manns eru bólusettir í hverri lotu fyrir sig og hver lotan bólusett á fætur annarri. Vilhelm Gunnarsson, ljósmyndari Vísis, var á staðnum í morgun og fangaði stemninguna.
Í dag verður notast við bóluefnið frá Pfizer og fólk bólusett með undirliggjandi sjúkdóma. Á morgun hefur fólk 60 ára og eldra verið boðað í bólusetningu en þá verður notast við bóluefnið frá AstraZeneca.

Á fimmtudaginn verður síðan haldið áfram niður aldurslistann í 60 ára og eldri hópnum.
RÚV hefur eftir Óskari Reykdalssyni, forstjóra Heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu, að verið sé að straumlínulaga bólusetningarferlið þannig að það taki skemmri tíma. Þannig sé stefnt að því að bólusetja sex þúsund í dag en 9.500 á morgun og þaðan í frá, svo lengi sem nægt bóluefni sé til.

Allir sem þiggja bólusetningu þurfa að mæta með skilríki og grímu.
„Bólusett er í axlarvöðva og í almennu rými. Því biðjum við fólk um að koma klætt þannig að auðvelt sé að ná í stungustaðinn. Gott er að vera í stuttermabol innst klæða. Allir þurfa að bíða í 15 mínútur eftir að bólusetning er gefin,“ segir á vef heilsugæslunnar.



