Erlent

Finnsku stjórnar­flokkarnir náðu sam­komu­lagi

Atli Ísleifsson skrifar
Sanna Marin hefur gegnt embætti forsætisráðherra Finnlands frá í desember 2019.
Sanna Marin hefur gegnt embætti forsætisráðherra Finnlands frá í desember 2019. EPA

Finnsku stjórnarflokkunum fimm hefur tekist að ná samkomulagi um fjárlagaramma til næstu þriggja ára. Hefur þannig tekist að koma í veg fyrir að stjórnin riði til falls líkt og sumir óttuðust eftir að viðræður drógust á langinn og leiðtogar eins stjórnarflokksins sögðust efast um framhald samstarfsins.

Stjórnarflokkarnir tilkynntu um hádegisbil að samkomulag væri í höfn. Deilurnar sneru meðal annars um óánægju Miðflokksins með hugmyndir Jafnaðarmannaflokks Sönnu Marin forsætisráðherra um að auka lántöku ríkisins, auka ríkisútgjöld og að sama skapi hækka skatta.

Annika Saarikko, leiðtogi Miðflokksins og vísinda- og menningarmálaráðherra, sagðist í gær vera að missa trúna á stjórnarsamstarfið sem hefur verið við lýði síðan eftir kosningarnar 2019.

Stjórnarsamstarfið hófst undir forsæti Antti Rinne en hann sagði af sér eftir um hálft ár eftir að þingflokkur Miðflokksins sagðist ekki bera traust til hans. Sanna Marin tók þá við embætti forsætisráðherra.

Auk Jafnaðarmannaflokksins og Miðflokksins eiga Vinstribandalagið, Græningjar og Sænski þjóðarflokkurinn aðild að ríkisstjórninni.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×