Ræða hans snerist að miklu leyti um það að selja kostnaðarsamar áætlanir hans í uppbyggingu innviða og breytingar í velferðarkerfinu. Forsetinn vill verja 1,8 billjón dala í málefni barna og fjölskyldna. Það er að segja auka framlög til leikskóla, dagvistunar, háskólamenntunar og barnabóta, svo eitthvað sé nefnt.
Alls vill Biden verja fjórum billjónum dala í þessi verkefni (4.000.000.000.000).
Eins og segir í grein AP fréttaveitunnar er meirihluti Demókrata á þingi mjög lítill og einhverjir Demókratar hafa lýst yfir efasemdum um áætlanir hans og hve kostnaðarsamar þær eru. Repúblikanar hafa gert það sömuleiðis og af mun meiri ákafa.
Biden er þó hvergi banginn og staðhæfði að Bandaríkin væru að ná nýjum hæðum.
„Bandaríkin eru tilbúin fyrir flugtak,“ sagði hann. Biden sagði einnig að Bandaríkin væru að leiða heiminn á nýjan leik og hefðu sýnt heiminum að Bandaríkin gæfust ekki upp.

Sagði lýðræðið þurfa að sanna að það virki
Þá talaði Biden um vanda lýðræðisins þessa dagana og krafðist hann þess að stjórnvöld sæju um eigin íbúa. Hann sagði að til að keppa við einræðisríki eins og Kína þyrftu Bandaríkin að sanna að lýðræðið virki enn, jafnvel þó forveri hans hefði grafið verulega undan því.
„Getur lýðræði okkar komist yfir lygarnar, reiðina, hatrið og óttann sem hafa sundrað okkur?“ spurði hann. „Andstæðingar Bandaríkjanna, einræðisherrar heimsins, eru að veðja á að við getum það ekki. Þeir standa í þeirri trú að við séum full af reiði, sundrung og heift. Þeir horfa á myndir af árásinni á þinghúsið sem sönnun þess að komið er að endalokum bandarísks lýðræðis,“ sagði Biden.
„Þeir hafa rangt fyrir sér og við þurfum að sanna að þeir hafi rangt fyrir sér.“
Hér má sjá hluta ræðu Bidens. Í heild sinni var ræðan rúmlega klukkustundarlöng.
Öldungadeildarþingmaðurinn Tim Scott flutti svarræðu Repúblikana og byrjaði hann á að gagnrýna Biden og sakaði hann um að brjóta loforð sitt um að reyna að starfa með Repúblikönum á þingi.
Staðhæfði hann að Demókratar beittu kynþáttadeilum sem pólitísku vopni. Scott er eini þeldökki öldungadeildarþingmaður Repúblikanaflokksins og einn ellefu þeldökkra öldungadeildarþingmanna Bandaríkjanna.
Hann hélt því fram að Bandaríkin væru ekki rasískt land og talaði á þann veg að kerfisbundinn rasismi væri ekki til.
Scott sakaði Biden einnig um að vilja ekki starfa með Repúblikönum og gagnrýndi forsetann fyrir hans helstu stefnumál í upphafi forsetatíðar hans. Nefndi hann aðgerðir Bidens gegn faraldri nýju kórónuveirunnar og innspýtingu í hagkerfið, gerði lítið úr þeim og sagði þær sóun á almannafé.
Gagnrýndi hann sérstaklega að skólum hefði verið lokað eða aðgengi takmarkað í sóttvarnaraðgerðum, sem sérfræðingar lögðu til.
Scott talaði einnig um kosningar í Bandaríkjunum og staðhæfði að Repúblikanar styddu það að gera það að kjósa auðveldara og það að svindla erfiðiara.
Repúblikanar víðsvegar um Bandaríkin vinna nú hörðum höndum að því að gera fólki erfiðara að kjósa á grundvelli ósanninda Donalds Trump, fyrrverandi forseta, og bandamanna hans um að umfangsmikið svindl hafi kostað hann ósigur í forsetakosningunum í fyrra.
Sjá einnig: Sagði að án takmarkana á kjörsókn muni Repúblikanar tapa um árabil
Aðgerðir Repúblikana beinast að miklu leyti að borgum Bandaríkjanna og segja sérfræðingar að þær muni koma verulega niður á þeldökkum Bandaríkjamönnum, sem þykja líklegri til að veita Demókrötum atkvæði sín.
Hér má sjá hluta ræðu Tim Scott.